“Overdyed” eða yfirlitaðar mottur hafa orðið mjög vinsælar á síðustu árum. Þessar mottur sem upphaflega koma frá Tyrklandi eru yfirleitt eldri mottur sem sem fá endurnýjun lífdaga með þessari meðferð. Litir og munstur mottanna sýna upphaflega handverkið en með þessari meðferð fá motturnar annað yfirbragð, passa kannski betur inn á nútíma heimili þó að teppin virðist vera eldri og notaðari en þau í raun eru. Þau gefa heimilinu lit en teppin halda samt sem áður tímalausum sjarma handverksins. Teppin eiga að líta út eins og þau séu vel notuð, hafi alltaf verið þarna.
Þessi aðferð var fyrst þróuð í Tyrklandi. Þau eru framleidd með því að nota gömul ekta hand hnýtt teppi. Fyrst eru motturnar klipptar þannig að þær verða eins og meira notaðar. Síðan eru þær aflitaðar þannig að litirnir verði hlutlausari. Þetta er gert bæði með efnum og sólarljósi. Þessi meðferð skilur einungis eftir útlínur munstursins. Motturnar eru síðan endurtekið litaðar í einum lit, þar til tilætluðum lit er náð. Því ljósari sem mottan er því notaðari virðist hún vera. Motturnar eru yfirleitt með einum lit en samt sem áður geta verið margir tónar af sama lit í mottunni sem gefur því ákveðinn kraft sem kemur til af ójöfnu yfirbragði og upphaflegu munstri mottunnar.